Sara Vilbergsdóttir

Blogg sem ég fann, það nýjasta síðan vorið 2007

31.5.07

Síðbúin sólbrúnka og heimkoma!


grillið
Originally uploaded by sara johanna.

Jæja, nú er ég komin heim í ferskan vindblæinn, skaðbrennd á lærunum og Gísli á maganum..... ;)
Við skelltum okkur í fyrsta sinn á grillið í sundlaugagarðinum síðasta daginn okkar, enda orðin heimilislaus kl.12 eins og alltaf er á hótelum síðasta daginn og flugið ekki fyrr en 10 um kvöldið. Við vorum bara svo óheppin/heppin að akkúrat þennan dag snarbatnaði veðrið, það var nánast heiðskýrt og steikjandi hiti.
Við mættum svo á flugvöllinn eins og kolamolar og hinar golf-grasekkjurnar sem legið höfðu á grillinu allan tímann urðu bara fúlar......: þið sem voruð hvít í gær þegar við hittum ykkur og komið svo í dag steikt af sól!!! og við búnar að streða við sólböð allan tímann og erum ekkert brúnni!!!!
Ég huggaði þær með því að við værum bara dökk á köflum, eiginlega eins og bútasaumsteppi úr rauðu, brúnu og fannhvítu efni. Þannig er ég t.d. eldrauð og brennd framan á lærunum en snjaka hvít aftan á þeim. Maginn er eins og langsoðinn kjúklingur á litinn en bringan eins og blóðug nautasteik og svona má lýsa öllum skrokknum. Þar að auki lá við að við yrðum að standa upprétt í flugvélinni vegna brunans - og helst án fata , ekki þægilegt þegar fötin nuddast við brunann. Samt var ég með sólarvörn með tölunni 30! Sterk sólin þarna næstum við miðbaug.
Flugið tók 5 og hálfan tíma, sem skotgekk á leiðinni út en virkaði sem heil eilífð á leiðinni heim. Ég get bara ekki fest svefn í flugvél og var því orðin verulega sybbin þegar við loks komum heim um 5 leitið í morgun. Auk þess lentum við í flugsætum sem í fyrstu virtust *saga Class* sæti, með miklu rými fyrir framan, en þetta voru þá sæti við neyðarútgang. Það var ekki hægt að leggja þau aftur og ekki heldur hægt að taka stólarmana upp, ekkert hægt að koma sér þægilega fyrir. Eins og það væri ekki nóg, þá fylgdi þessum sætum líka heilmikil ábyrgð: Flugþjónn kom og kenndi okkur í smáatriðum hvernig við ættum að opna neyðarútganginn ef til þess kæmi að það þyrfti!
Alltaf skrítinn fyrsti dagurinn eftir svona ferðalög milli landa, eins og maður detti inní eitthvað tómarúm, heilinn í vagúmpakkningu, kannski er það satt sem einhver sagði, að sálin kæmi alltaf með næstu vél.
Svo nú er að strauja í gegnum dagblaðafjallið, kynna sér hvað er í gangi hér, komin ný ríkisstjórn og svona.......
Mér sýnist mér hafi tekist að lauma einhverjum sólargeislum og hitagráðum með mér í farangrinum. Esjan er allavega ekki hvít!

29.5.07

Tenerife aftur, fleiri skrímsli, Abba-show og útskriftargjöf!!


Sólgleraugun
Originally uploaded by sara johanna.

Allt annað líf síðan ég fékk sólgleraugun! Birtan hér er ekki fyrir venjuleg íslensk augu eins og glöggt má sjá á þessari mynd. Ég gafst upp á að leita að passandi gleraugum til að smella á mín, öll voru svona rúnnuð og stór. Ég keypti þessi, fór svo heim og klippti þau til. Hér eru þau fyrir klippingu.

Við flugum til baka til Tenerife í gærkvöldi að afloknu matarboði hjá Jóhanni og Cristinu. Þegar við komum á hótelið mætti okkur kunnugleg vond lykt og hótelgarðurinn var allur blautur. Kakkalakkar lágu eins og hráviður út um allt, á bakinu. Merkilegt hvernig þeir skella sér á bakið á dauðastundinni. Það hafði greinilega verið kallaður til meindýraeyðir. Líklegast einhverjir hótelgestir sýnt harðari viðbrögð en við um daginn. Þegar við svo opnuðum íbúðina stökk á móti okkur skrímsli sem hafði reynt að plata dauðann. Þar misreiknaði það sig, því Gísli tók stökk inná bað, náði í eiturbrúsann og dúndraði á hann örugglega hálfum brúsa og skrímsla-gaurinn endaði á bakinu. Nokkrum mínútum síðar kom í ljós að hann var ekki einn um að hafa sloppið undan meindýraeyðinum, vinur hans var á vappi inná baðherbergi......Hann hlaut sömu örlög og var kominn á bakið stuttu síðar. Brúsinn örugglega alveg að verða tómur, bara á þessa tvo og þetta er enginn smá brúsi. Whiskýið er miklu betra á þennan ófögnuð, það drepur þær á augabragði á meðan þetta gutl með vondu bón-lyktinni fargar þeim hægt og rólega. Smelli mér kannski á nýjan whiský pela, hinn er náttúrulega löngu búinn, -fylgir ekki sögunni hver sá fyrir því...
Gólfið semsagt löðraði allt í klístruðuí skordýraeitri svo nú tók við gólfþvottur á síðkvöldi.
Þetta er nú meira pöddubælið ;)

Til að njóta adrenalínvímunnar eftir átökin, blönduðum við okkur gin&tónic og settumst útá svalir. Þar bárust okkur þessir fínu Abba-tónar og greinilega fjölmennur gleðskapur. Það var rjóma logn og mun hlýrra en verið hefur.
Við ákváðum að drífa okkur út og renna á hljóðið.
Þetta kom frá nærliggjandi hótelgarði og þar plöntuðum við okkur niður, fengum okkur meira gin&tónic og horfðum á Abba showið sem var bara þokkalegt, nema búningarnir voru arfa-ljótir fyrir utan silfurlituðu háu stígvélin á Agnetu og Frídu og útvíðu glimmer-buxurnar á Benny og hvað hann heitir aftur hinn.....Andersen?
Að því loknu tók við maður með skemmtara, þeir virðast vera hér á hverju strái og spila alltaf sama prógrammið aftur og aftur, hver með sitt prógram þó, þessi var með nýrri slagara en sá sem er alltaf hér á okkar hóteli, enda yngra fólk þar.
Hann er dulítið langur í okkur fattarinn, við höfum oft heyrt tónlist og gleðskap þegar við höfum setið útá svölum á síðkvöldum, en föttuðum ekki hvaðan hljóðið barst fyrr en núna, næstsíðasta kvöldið okkar hér. Semsagt hótelið við hliðina á okkur er aðal djammstaðurinn í bænum!

Nú er kominn þriðjudagur og Gísli farinn í sitt golf en ég hugsa mér gott til glóðarinnar með nýja leikfangið mitt sem ég fékk gefins í gær!!!! JESSSSSSS!
Haldiði að ég hafi ekki fengið Sigma 10-20mm linsu í útskriftargjöf frá bóndanum!!!
Jóhann frændi fór með okkur í ljósmyndavörubúð sem hann þekkir í krók og kring í Las Palmas . Það er búið að vara mann svo rækilega við indverjunum sem undantekningalaust reka þessar búðir og eru jafnvel að selja fólki tóma kassa dýrum dómum, eða með einhverju gömlu drasli í fínum umbúðum, fyrirtæki Jóhanns er í föstum viðskiptum við þessa búð (sem selur líka sjónvörp og alls konar raftæki) svo þeir þora ekkert að steypa í honum :)

En nú ætla ég að vinda mér útí næst síðasta Tenerife-daginn minn :)
og sjá hvernig hann spinnur sig.

P.s. eftir að ég skrifaði þessa færslu fór ég að hafa mig til til að fara út og komst þá að því að nýju gleraugun eru ónýt! Ein af nokkrum skrúfum er dottin af og finnst ekki, svo nú hangir annað glerið lóðrétt niður á kinn. Spurning hvort ég nenni nokkuð að redda mér nýjum.....?

28.5.07

Las Palmas, smá gleymska og þjónakoss..........


Late afternoon in Canaria
Originally uploaded by sara johanna.

Búin að vera í aldeilis góðu yfirlæti í Las Palmas á Kanarí yfir helgina!
Lóðsuð um af innfæddum fyrsta daginn (þ.e. Jóhanni frænda og Christinu, konu hans, sem er fædd hér og uppalin) Við fengum íbúð uppí hendurnar og bíl Jóhanns til frjálsa afnota! Fórum síðan með þeim og Söru litlu dóttur þeirra á lókal veitingarhús að hætti heimamanna. Á Laugardögum hópast fjölskyldurnar saman í löns á heimilislegum resturöntum og gæða sér á góðum mat. Þarna var ekki einu sinni matseðill, þjónninn kom bara og þuldi upp það sem var í pottunum þennan daginn og þá var eins gott að kunna spænsku....sem þau gerðu ;) Við borðuðum líka með þeim kvöldmat í gamla bæjarhlutanum þar sem er hellingur af skemmtilegum matsölustöðum, og það var ekki kl. sjö.....heldur uppúr kl. tíu um kvöldið sem sú athöfn hófst. Og þvílíkt gúmmolaði sem við fengum......ekkert nema nammi namm.
Í dag fórum við hjónakornin svo í bíltúr hringinn í kring um eyjuna.
Lögðum keik af stað uppúr hádegi vopnuð einhverju míní landakorti sem dugði svo svona skrambi vel. Las Palmas er efst til hægri á kortinu, semsagt norð-austur, og við ókum niður, í suður . Enska ströndin, sem milljónir íslendinga fara á ár hvert, er einmitt á suðurströndinni og að sjálfsögðu stoppuðum við þar til að skoða verksummerki. Það var líka kominn tími á hressingu og við fórum að skima eftir bitastað sem okkur gæti hugnast.
Nema hvað að Gísli fer að haga sér eitthvað undarlega, þessi annars dagsfarsprúði maður byrjar að lemja sig allan að utan, einkum og sérílagi á mjaðmirnar, rassinn og sitthvorumegin við gersemarnar.
Ég er nægilega greind til að sjá að það er eitthvað sem er ekki eins og það á að vera..... Hvað það er kemur í ljós þegar hann segir: Veskið........!!!!
Peningaveskið okkar var semsagt á stofuborðinu í Las Palmas........

Sem betur fer voru nokkrar evrur í ljósmyndatöskunni minni, svo okkur tókst að nurla saman fyrir tveimur kaffibollum á ensku ströndinni áður en við snérum til baka að sækja veskið.
Svo var það bara byrjunarreitur aftur: Hringferð, taka tvö!

Það var EINN geisladiskur í bílnum og við spiluðum hann hring eftir hring.
Þetta var Jóhann Helgason/ Söknuður........og sá er góður!
Ekkki grunaði mig að hann hefði samið öll þessi lög sem hann flytur þarna.
Sjálfur gerir hann þetta svo vel að þótt þau séu mjög vel flutt af öðrum flytjendum, sem hann samdi þau fyrir, toppar hann flutninginn undantekningalaust!

Ferðin upp vesturströndina á Kanarí var mögnuð, snarbrattir og bugðóttir fjallvegir í mögnuðu landslagi. Sólin gerði líka sitt til að auka á dramatíkina, ljós og skuggaspilið var ekki af verri endanum, Komum ekki heim fyrr en um níu leitið í kvöld (stoppuðum oft, oft, oft á leiðinni).

Slepptum svo síðdegisblundinum, enda komið síðkvöld , brugðum okkur í gamla bæjarhlutann, leituðum að góðum matsölustað og kröfluðum okkur fram úr spænskum matseðli, þjónustustúlkan sem var frá Argentínu, forvitnaðist um hvaðan við værum og varð uppnumin þegar það lá ljóst fyrir og sagði full aðdáunar: BJORK! Hún kvaddi okkur með kossi á báðar kinnar og við tókum leigubíl heim eftir langan og góðan hvítasunnudag :)

Á morgun kemur nýr dagur og við vitum ekkert hvernig hann verður, nema að við stefnum að flugi annaðkvöld til baka til Tenerife :)

25.5.07

9 holur, flugferð og magaverkur


Golfari við iðju sína
Originally uploaded by sara johanna.

Brá mér á golfvöllinn í bítið í morgun með golfurunum. Ég lét mér nægja að fylgja þeim 9 holur af 18 og tók svo leigubíl heim. Fallegur golfvöllur, það vantar ekki! og veðrið lék við hvurn sinn fingur.
Fyrir utan að forvitnast var mitt hlutverk var að taka af þeim myndir en það gekk ekki alveg nógu vel. Ég er ekki nógu örugg á stillingarnar og óvön að taka myndir í svona mikilli birtu. Náði samt nokkrum þokkalegum held ég. Nú svo kann ég ekkert reglurnar og stóð oft á vitlausum stað, alltaf verið að segja mér að fara hingað eða þangað svo ég fengi ekki bolta í hausinn (sem ég hélt að héti kúla og fékk háðsglósur fyrir) ....Gengur betur næst.
Í fyrramálið (laugardag) ætlum við að fljúga til Las Palmas á Kanarí og heimsækja Jóhann frænda , konu hans Christinu og dótturina Söru. Hlakka mikið til að sjá nöfnu mína Jóhannsdóttur sem fæddist í febrúarbyrjun. Jóhann er búinn að útvega okkur íbúð og bíl og ætlar með okkur út að borða annað kvöld að hætti heimamanna eins og hann orðaði það, semsagt ekkert túristadæmi!
Hann hefur búið þarna í 6 ár og kann vel við sig í þessu loftslagi. Það verður mikið gaman að hitta þau og komast í *eðlilegt* umhverfi :)
Annars er bara allt gott, nema ég fékk svakalegan magaverk í gærkvöldi og hélt að nú væri komið að því, maðurinn með ljáinn stæði á svölunum, kominn til að sækja mig. Ég rótaði í skúffunum eftir neyðarnúmeri farastjóranna og benti Gísla á það *in case* ef maginn myndi springa með hvelli. Verkurinn stóð í svona gott korter en hvarf síðan jafn snöggt og hann kom og engin Sara dó. Skessustingur semsagt ;)
Maga-sagan er eingöngu skrifuð Ylfu frænku til skemmtunar, við frænkurnar erum nefnilega við dauðans dyr a.m.k. einu sinni í viku, og þegar verst lætur oft á dag!
Það er engan veginn hægt að útskýra þetta syndróm fyrir eðlilegu fólki, held að við séum þær einu í heiminum sem eru haldnar því ;)

En nú er það sólin..... ég VERÐ að fara að byrja að sóla mig eitthvað, búin að vera hér í viku og 2 daga og bara búin að fara í sólbað í einn klukkutíma á svölunum! Ég hef ekki eirð í mér til að liggja kjur í sólbaði. Hinsvegar er gaman að svamla í sjónum, kannski ég bregði mér bara niður á strönd!

24.5.07

Sjókokkur á vitlausum stað!


sjókokkar
Originally uploaded by sara johanna.

Ég er náttúrulega kolvitlaust staðsett á hnettinum í dag.
Í dag ætti ég með réttu að vera stödd í Digraneskirkju klukkan eitthvað sem ég man ekki, með blóm í barmi og tár á hvarmi að taka á móti prófskírteininu úr kokkaskólanum! Í dag er ég orðin löglegur Sjókokkur! Á skírteininu heitir það líklega Matsveinn, en í daglegu tali kallað sjókokkurinn.
Eftir athöfnina ætti ég svo að mæta í myndatöku með hópnum, en að þessu sinni verð ég ein af þessum: *á myndina vantar.........*

Ég hugsaði bara ekkert út í þetta þegar Tenerife ferðin var pöntuð og keypt.
Vissi reyndar ekki þá að það yrði formleg útskrift með pompi og prakt.....
Fífl gat ég verið!!!! -Þarna missti ég af glás af útskriftargjöfum sem hefðu getað verið sitthvað smálegt þessu tengt. Í fljótu bragði koma í hugann hlutir eins og gaseldavél með sjálfhreinsandi ofni, ísvél, hakkavél, hrærivél, kjarnhitamælir, borðstofusett, laukklukka, frystiskápur, utanlandsferðir með gömlum frænkum, já og kannski Sigma 10-20mm víðlinsa á myndavélina mína!
en nei.....fyrir fljótfærni og flautaþyrilshátt missti ég af þessu öllu :(

Tvennt get ég samt yljað mér við á þessum degi:
númer 1) Það ER til hópmynd af okkur sem útskrifumst í dag, þar sem ekki er neinn sem: *á myndina vantar* Ég tók hana sjálf (myndavélin á þrífæti) rétt áður en við fórum í lokaprófið í verklegri matreiðslu. Við höfðum mjög nauman tíma fyrir myndatöku og vorum öll útúr stressuð þó það sjáist engan veginn á svipnum á okkur, allir með kúlið á sínum stað (svona að mestu leyti ;) - hinsvegar vegna tímaskortsins náði ég ekki að stilla vélina eins vel og ég hefði getað annars ;)
númer 2) ég FÉKK útskriftargjöf áður en ég fór út, alveg gersamlega óvænt: Bryndís systir og Garðar mágur færðu mér æðislega blágræna kertalukt (ylfa, er það nokkuð lugt?) , rauðvínsflösku OG Balayeurs du desert, diskinn með hljómsveitinni sem fylgdi Risessunni um Reykjavík á dögunum! Hann er alveg æði!
Takki takk elskurnar, þið björguðuð deginum!

Í dag, klukkan eitthvað sem ég man ekki, er ég í huganum með skólafélögum mínum í útskriftinni... og bara óska okkur öllum innilega til hamingju með daginn !

23.5.07

Af sólsting, fótbolta og dansi-dansi


Sundlaugarbakkinn
Originally uploaded by sara johanna.

Nú hafa borist fréttir af íslenskri konu á golf-hótelinu sem fékk all svakalegan sólsting á dögunum þegar hún gekk eftir ströndinni derhúfulaus á sólarlausum degi! Höfuðið á henni bólgnaði upp svo kalla þurfti til lækni! (ég hefði dáið úr hræðslu) Hún er nú á batavegi. Önnur íslensk kona smellti sér í sólbað fyrsta morguninn og brann svo rækilega að hún hefur haldið sig innandyra síðan. Hún getur ekki verið í fötum vegna brunans! Á kynningarfundinum með fararstjórunum var okkur sagt að fengjum við í magann, væri það nánast alltaf vegna hitans en ekki eitraðra matvæla. Hugsið ykkur bara hvað þið eruð heppin að hafa slydduna og haglélið í Reykjavík en ekki þetta stórhættulega veður hér!
Og þetta borgum við fyrir dýrum dómum, er ekki í lagi með okkur?

Í kvöld er ég grasekkja, bóndinn farinn á breska krá með golfurunum að fylgjast með hvort Ítalir eða Bretar vinni einhvern titil í fótbolta. Þeir taka dæmið snemma, ætla að borða fyrst einhverjar testósteron-piparsteikur og hita sig upp fyrir átökin.
Mér var auðvitað boðið fyrir kurteisissakir en afþakkaði pent, ekki minn tekoppur.


Ég ætla út í búð og kaupa mér eitthvað gott í gogginn og nú er ég búin að finna fína útvarpsstöð með góðri nostalgíu músík frá ýmsum tímabilum, allskonar músík, earth wind& fire, tina turner, piano man (lag), elvis, steely dan, pixies, rem, led zeppelin, cat stevens og name it! Svo fæ ég mér bara romm og kókakóla , stilli í botn og dansa í sandölunum á svölunum...... Það verður gaman hjá mér ;)

p.s. við fengum nýja hótellykla svo nú er allt í orden:) Þetta er allt tölvustýrt núorðið og ekkert mál að breyta skrám....

22.5.07

Allsstaðar eru þessir glæponar!



Originally uploaded by sara johanna.

Þetta með sólina í gær reyndist svo bara vera gabb. Hún lét sjá sig í bítið en svo hrönnuðust skýin fyrir hana og héldu sig þar daginn út! Þannig hefur þetta reyndar verið síðan við komum, sól til 10 á morgnanna og svo búið. Þetta lítur betur út í dag, komið fram yfir hádegi og ennþá bara fjórir litlir skýjabólstrar á himni og enginn þeirra í námunda við sólina :) Ég fæ kannski uppreisn æru hjá hinum golf-grasekkjunum eftir þennan dag.....sjö níu þrettán......
Ég frétti að hefði snjóað í Reykjavík í gær! Þá átti náttúrulega að hlakka í mér.....
Það fylgir ekki sögunni hvort það gerðist ;)

En nú er komið smá babb í bátinn: annað hvort okkar er búið að týna hótellyklinum sínum og bóndinn farinn í golf, lyklalaus. Eins gott að þetta uppgötvaðist áður en hann fór í morgun, annars hefði ég ekkert komist inní íbúðina aftur fyrr en síðdegis.
Að sjálfsögðu snérum við öllu á hvolf í íbúðinni og leituðum allsstaðar og mörgum sinnum á hverjum stað en án árangurs.

Og með það sama fór neikvæða hugmyndaflugið mitt í gang, á augabragði sá ég í hendi mér hvað hafði gerst : Á veitingahúsinu í gærkvöldi hafði lykillinn minn skoppað uppúr ljósmyndatöskunni þegar ég var að ná í myndavélina til að afmynda matinn sem var svo flottur, einhver túrhestur með krimminel tilhneigingar sat við nærliggjandi borð og sá þegar lykillinn (sem er rafrænt kort) datt undir borðið. Hann sá líka hvað ég var með gífurlega flotta myndavél og hugsaði með sér að fyrst ég ætti svona grand myndavél, hlyti ég að eiga afbragðs fartölvu uppá hóteli til að setja myndirnar í og jafnvel vinna eitthvað með þær.
Hann beið þangað til við drifum okkur burt, örugglega búinn að borða fjóra eftirrétti til að biðin yrði ekki grunsamleg í augum þjónanna. Síðan náði hann í kortið undir borðinu og elti okkur heim á leið svo lítið bæri á. Hann var með blýant og blað í vasanum og skrifaði niður hjá sér númerið á íbúðinni, ákveðinn í að koma á morgun (í dag) og stjéla tölvunni og myndavélinni!

Síðan ég fattaði þetta er ég búin að vera á báðum áttum hvort ég eigi að þora að yfirgefa íbúðina og skjóta mér út í sundlaugargarð eða hvort ég eigi bara að hanga á svölunum (vonandi er þrjóturinn ekki með byssu). Ég er búin að vera að skima eftir felustöðum í íbúðinni en engan skynsamlegan fundið ennþá. Ekki setur maður tölvuna inní ísskáp!

Eina sem ég get gert í stöðunni er að slaufa sólbaðinu og koma mér útí internet-kompuna innaf ljósmyndavörubúð indverjanna hér ofar í götunni, þangað tek ég nottla með mér tölvuna, já og til öryggis myndavélina.....
Svona getur nú lífið stundum verið flókið þegar maður á dýrgripi :(
Aumingja Dorrit.....segi ég nú bara! Hvað má hún líða?

21.5.07

dagbók frá Tenerife....


Mao lúkkið
Originally uploaded by sara johanna.

Laugardagur:
Sem betur fer var engin sól í dag, því ég er ekki ennþá búin að finna á mig sólgleraugu sem passa utanum sjóngleraugun. Nógu er nú bjart samt, þó sólin sé ekki að bæta ofan á það.
Annars keypti ég mér derhúfu í gær til að redda mér fram að sólgleraugum . Ég er ekki flott með derhúfu. Allavega ekki með klassíska kúlulaginu svo ég prófaði annað snið sem er svona öllu ferkantaðra uppá kollinum. Hún er hermanna-græn og í speglinum í búðinni var ég bara nokkuð flott með hana, spegillinn að vísu i minni kantinum og í dimmu skoti. Húfan gerir alveg gæfumuninn, augun ekki eins konstant pýrð og minni hætta á sólsting þegar sólin lætur sjá sig.
Ég var bara nokkuð góð með mig og stóð í þeirri meiningu allan daginn að ég væri voða sæt með nýju húfuna........gott ef ekki bara sætasta stelpan á ballinu....þar til ég kom aftur heim á hótel og mætti risaspeglunum þar, sem spegla alla vínkla...
- Ég var ekki pæjuleg!...leit út eins og Mao formaður, með græna kaskeitið! *Sætt* var langt því frá rétta lýsingarorðið yfir lúkkið. -Eitthvað sem vekur óttablandna virðingu var kannski nær lagi, enda þegar ég hugsa til baka er ég ekki frá því að ég hafi einmitt séð svoleiðis svip á fólkinu sem mætti mér á götu eftir að ég setti upp húfuna ;)

Við brugðum okkur til golf-gengisins í hinum bæjarhlutanum til að snæða með þeim kvöldmat. Þau fóru með okkur á stað rétt hjá hótelinu þeirra. Þar var góður matur og heimilisleg þjónusta og þau búin að prófa alla réttina á matseðlinum sem voru aðallega nautasteikur (ég fékk mér samt pastarétt). Okkur til undrunar kom í ljós að þau voru búin að borða þarna öll kvöldin og ætluðu sér að halda því áfram! Ekkert að vesenast, sögðust alltaf gera þetta erlendis, finna sér matstað nálægt hótelinu og halda sig við hann!!! alveg öfugt við okkur sem erum eins og flær á skinni alltaf á nýjum og nýjum matsölustöðum í leit að nýjum ævintýrum fyrir bragðlaukana.
Þegar við sögðum þeim skrímslasöguna okkar hrópuðu þau umsvifalaust: Látiði færa ykkur strax! T.d. hingað, hér eru engar pöddur. En okkur verður ekki haggað, við ætlum bara að búa áfram á okkar elli-smella-hóteli. Skrímslin eru dauð og við treystum því að þau hafi þegar mætt á miðilsfund hjá eftirlifandi skrímslum og varað þau við viský-morðingjunum ógurlegu.

Sunnudagur:
hm.....engin sól í dag heldur......fjórða daginn í röð........
Spurning hvort ég á að hafa einhverjar áhyggjur af þessu? Ég fór í tveggja vikna sólarferð í fyrrasumar og þá var bara sól í 2 daga, rigning og þrumuveður alla hina, og svo skrapp ég til Svíþjóðar í apríllok hvar hafði verið hitabylgja í mánuð, en þá fjóra daga sem ég var þar, dró fyrir sólu og kólnaði allískyggilega, fór niður í 4 gráður minnir mig, vettlinga og húfu veður en hlýnaði síðan aftur svo um munaði um leið og ég hypjaði mig til baka heim. Er einhver að fikta með vúdú-dúkku á mig og ferðalög? Ég asnaðist til að segja golf-ferðafélögunum þessar ferðasögur mínar og nú eru þau klár á því að sólarleysið hér sé mér að kenna! Þau höfðu séð fyrir sér sólböð á sundlaugarbakkanum í bland við verslunarferðir , golf og kvöldmat á horninu en hafa svo ekki enn getað spókað sig á bikiníunum sínum.

Í dag gengum við eftir endilangri strandgötunni, sem var þriggja tíma ganga ef með eru talin þrjú bjór og hvítvíns stopp. Við sannfærðumst enn betur um hversu heppin við værum með okkar elliheimili og umhverfið þar. Allavega gætum við ekki hugsað okkur að búa á amerísku ströndinni, þar er túrisminn alveg ærandi, kraðakið og sölumennskan verulega ágeng og óyndisleg. Maður gengur ekki þrjú skref áfram án þess að ráðist að manni blakkur sölumaður með sólgleraugu í massavís á öðrum handleggnum en hálsmen á hinum , allir með eins varning. Á víð og dreif sitja svo þrjár blökkukonur í hnapp, mjög fallega klæddar í skærum mynstruðum búningum og bjóðast til að setja perlur og fléttur í hárið á þeim sem það vilja.
(Ég skil ekki alveg afhverju þær eru alltaf þrjár saman.....) Ekki er mikið að gera hjá þeim enda markhópur þeirra, litlar stúlkur, ekki hér í hrönnum í augnablikinu, töluvert of hár meðalaldur á staðnum fyrir þeirra þjónustu. Þær reyna samt.........ótrúlega bjartsýnar!
Ein reyndi t.d. að fá mig í svona aðgerð!!!! Og ég sem var með mao húfuna kyrfilega klessta á kollinum....hún hlýtur að hafa verið nýbyrjuð í bransanum blessunin. Minnug þess að ónefndar ungar frænkur mínar komu grálúsugar heim úr Frakklandsreisu í fyrrasumar hvar þær einmitt keyptu sér svona þjónustu, afþakkaði ég gott boð.

Nú er kominn mánudagur og bóndinn farinn í golf. Sólin er ekki eins feimin og undanfarið því nú sýnist mér vera hálfskýjað. Kannski ég leggist bara á grillið við sundlaugarbakkann. Verst að ég steingleymdi að taka með mér bók að heiman svo ég hef þurft að blogga í staðinn, mér til dægrastyttingar, en varla tek ég tölvuna með út í sundlaugargarð. Aðeins of bjart (og blautt) til þess :)

19.5.07


Skrímslin dauð
Originally uploaded by sara johanna.

Við hjónin stóðum í ströngu við eiturefnahernað til kl. 3 í nótt.
Fórum frekar seint út að borða í gærkvöldi og á smá pöbbarölt eftir það.
Komum svo heim um 1 leitið, fengum okkur kvöldhressingu og duttum í smávegis kjaftastuð. Í miðju spjallinu birtist skrímslið, í þetta sinn undan sjónvarpsskenknum og trítlaði um gólfið eins og það væri kóngurinn sjálfur.
Það var búið að vera opið út á svalir í lengri tíma svo ekki var það málið að það slyppi ekki út. Greinilegt var að það var staðráðið í að hafa fasta búsetu í íbúðinni. Hvort það var brjóstbirtunni að þakka eða öðru þá vaknaði þarna drápseðlið í okkur báðum.
Við byrjuðum á að færa til húsgögn því dýrið skaust alltaf allsstaðar á bak við, og á endanum var allt komið á hvolf húsgögn, borð og skápar, út á mitt gólf. Þarna sáum við að dýrið skaust upp veggi og gat gengið á hvolfi undir húsgögnum og komst mikið meira um en við höfðum áður haldið. Við sáum líka að það gat dregið sig saman og skotist undir hurðir á milli herbergja! Það var hrollvekjandi, því bilið þar er eiginlega ekki neitt. Í miðjum eltingaleiknum birtist nýtt skrímsli! Aðeins minna og öðruvísi en sömu ættar...kannski konan eða barnið...? Það var þá sem við skutum á neyðarfundi í sófanum og lögðum á ráðin um almennilegar hernaðaraðgerðir og fórum yfir hvaða morðvopn væru til í kotinu. Þótt ótrúlegt megi virðast (að ég tímdi því) kom hugmyndin frá mér: Við skyldum drekkja þeim í viskýi! Ég spratt upp og náði í óopnaðan fríhafnar-viskýpela , afmeyjaði hann og hellti í glas og upphófst nú eltingaleikur við dýrin bæði, við skvettum á þau til skiptis en í byrjun tókst þeim alltaf að skjóta sér undan. Þegar leið á stríðið fór þeim eitthvað að förlast og litla dýrið varð fyrst fyrir smá gusu og VÁ! það var eins og við manninn mælt, það steinlá með það sama! Stóra skrímslið dó svo skömmu síðar. Semsagt : Viský drepur!
Þegar adrenalínvíman fór að renna af okkur og við fórum að líta í kringum okkur fengum við hláturskast, Íbúðin var gersamlega á hvolfi, viskýpelinn hálfur og viskýpollar um öll gólf og sumstaðar skvettur langt uppá veggi. Sjónvarpsskjárinn snéri uppað vegg (stendur á skenk á hjólum) skúffur voru á víð og dreif um stofuna því kvikindin höfðu skotist um allt, m.a. inní skúffur og skápa Og inní tölvutöskuna mína! Og þvílíkur áfengisfnykur! Við máttum gjöra svo vel og skúra allt hátt og lágt og lofta út. Nú er kominn nýr dagur og pöddurnar ennþá steindauðar á vaskborðinu, en til öryggis helltum við slatta af viskýi á þær eftir að þær voru dauðar, svona til að fyrirbyggja að þetta væri ekki bara áfengisdauði. Ég ætla svo að skjótast með þær niður í lobbý á eftir og sýna hótelstaffinu gripina og spyrja í leiðinni hvað svona pöddur heiti.
Nú er ég búin að fá það staðfest að kvikindin heita Cucarachas og eru hér í milljónatali. Við fengum brúsa af skordýraeitri afhentan með viðhöfn, svo nú getum við brúkað viskýið til annarra hluta ;) Eru þetta kannski ekki bara kakkalakkar?
Viskýmaðurinn ógurlegi


p.s. Varðandi fyrirsögnina á færslunni á undan, Ylfa, ég veit ekki hvað kom yfir mig að skrifa skrímsli með yppsiloni, það jaðrar nottla við dauðasynd! en það er eitthvað *bögg* á blogger svo ég get ekki breytt því núna :( Reyni aftur síðar, því þetta gengur náttúrulega engan veginn !

18.5.07

Gott veður, skrýmsli og eldri borgarar :)



Originally uploaded by sara johanna.

Eitthvað hefur yahoo klikkað á veðurspánni, hér er hvorki dropi af rigningu né þrumugangurinn sem hótað hafði verið. Hér er bara sól og hiti og svo bjart að ég get varla haft augun opin. Fæ mér sólgleraugu á eftir! Reyndar var okkur sagt í gær að hér væru að meðaltali þrír rigningadagar á ári (yahoo hótaði 8 regndögum í röð!!! ;) Nú er Gísli farinn í golf og ég svona að fara að drífa mig út í daginn. Fer bara á eitthvað rand niður í bæ með myndavélina, býst ég við. Annars er það mottó hjá mér þessa dagana að plana ekki neitt, láta bara hvern dag spinna sig eins og honum þykir best.
Það kom fljótlega í ljós að við erum ekki ein í íbúðinni hér, það fylgir gæludýr með.
Gísli er sveitastrákur og þekkir dýrin stór og smá, þekkir t.d. alla fugla með nafni og hvaðeina, en þetta dýr hefur hann aldrei fyrr séð. Okkur grunar þó að þetta sé skordýr (stórhættulegt og í drápshug, vil ég meina). Sem betur fer flýgur það ekki, en það er á stærð við sígarettukveikjara og heldur ófrýnilegt allt saman. Fyrstu nóttina bjó það á baðherberginu svo það var ekkert pissað þá nóttina en í gærkvöldi þegar við komum heim var það búið að flytja sig inní stofuna. Þegar við komum inn gekk það ákveðið í átt að mér (berfættri) og ég verð að viðurkenna að var að því komin að veina en fraus svo bara í staðinn , fraus í hoppum, hoppaði til og frá og dýrið elti mig!!!! þar til ég stappaði svo rækilega niður að það flúði undir sófa. Venjulega er ég ekkert hrædd við skordýr, mýs og annað smálegt, en þetta skrímsli er bara aðeins of mikið fyrir mig. Ég sá það á Gísla að hann var ekkert hrifinn heldur en hann setti upp pókerfeisið um leið og skrímslið var komið undir sófann og sagði bara : .....Hva!
Enginn drápshugur, ekki neitt, ekkert að bjarga frúnni frá bráðu taugaáfalli....bara :Hva!....... dýrið er bara hrætt við þig! Já einmitt! það er svo hrætt við mig að það gengur ákveðnum skrefum að mér með klær og rana, risastórt og eltir mig í hoppunum þar til ég næstum fótbrýt mig í risa stappi.....hm.....
Dýrið er enn undir sófanum örugglega búið að innrétta sér íbúð þar og hefur það garanterað bara næs.
Hér á hótelinu er internettenging....en nei ég get ekki notað fartölvuna mína, internetið er í gegnum sjónvarpið og ég þarf snúru og lyklaborð til að geta notað það. Það er ekki hægt að fá lyklaborð hér. Hver ferðast með lyklaborð með sér?
Kannski finn ég eitthvað netkaffihús, kannski ekki. Á meðan blogga ég bara í TextEdit ;) sendi það svo í loftið þegir færi gefst.
Annars líst mér bara bráðvel á staðinn, fengum okkur þjóðarrétt hérlendra í gærkvöldi, kryddlegna kanínu og rosa góðan kaffidrykk á eftir sem heitir Barraquto. Kanínan var líka bráðgóð. Við komum hingað með vinafólki okkar en búum í alltöðrum bæjarhluta fyrir misskilning. Meiningin var að við værum í göngufæri við þau, þau vildu búa á golfvellinum, eða við hann, en eitthvað misfórst í pöntuninni og þeim var plantað á kolvitlausan golfvöll, svo nú eru það leigubílar sem Gísli situr í lungað af deginum, til og frá golfvelli og svo að hittast á kvöldin þegar við nennum.
Einnig erum við einu íslendingarnir á þessu hóteli, hinir 200 rottuðu sig saman á öðrum hótelum, líka fyrir misskilning, en það er bara flott, hér erum við eins og lítil börn samanborið við aðra gesti hótelsins eru hard-core þýskir eldriborgarar, og þá meina ég eldri borgarar, göngugrindur og græjur ;) Ekki eru samt allir í göngugrind, nokkur hjón dansa hér á barnum á kvöldin við undirleik eins manns með skemmtara sem flytur aðallega Tom Jones og Engilbert hömperdínk slagara á milli þess sem hann spilar foxtrotta, ræla og valsa. Alveg óþægilega svakalegur tónlistargerningur. Heilmikið bíó samt að fylgjast með þessu. Ég sé á auglýsingum að í kvöld verður töframaður að skemmta á barnum og þegar hann hefur lokið sér af verður Risa Bingó!!!! Kannski við bregðum okkur á það, ef við fáum barnapíu fyrir skrímslið.