Sundlaugarbakkinn
Originally uploaded by sara johanna.
Nú hafa borist fréttir af íslenskri konu á golf-hótelinu sem fékk all svakalegan sólsting á dögunum þegar hún gekk eftir ströndinni derhúfulaus á sólarlausum degi! Höfuðið á henni bólgnaði upp svo kalla þurfti til lækni! (ég hefði dáið úr hræðslu) Hún er nú á batavegi. Önnur íslensk kona smellti sér í sólbað fyrsta morguninn og brann svo rækilega að hún hefur haldið sig innandyra síðan. Hún getur ekki verið í fötum vegna brunans! Á kynningarfundinum með fararstjórunum var okkur sagt að fengjum við í magann, væri það nánast alltaf vegna hitans en ekki eitraðra matvæla. Hugsið ykkur bara hvað þið eruð heppin að hafa slydduna og haglélið í Reykjavík en ekki þetta stórhættulega veður hér!
Og þetta borgum við fyrir dýrum dómum, er ekki í lagi með okkur?
Í kvöld er ég grasekkja, bóndinn farinn á breska krá með golfurunum að fylgjast með hvort Ítalir eða Bretar vinni einhvern titil í fótbolta. Þeir taka dæmið snemma, ætla að borða fyrst einhverjar testósteron-piparsteikur og hita sig upp fyrir átökin.
Mér var auðvitað boðið fyrir kurteisissakir en afþakkaði pent, ekki minn tekoppur.
Ég ætla út í búð og kaupa mér eitthvað gott í gogginn og nú er ég búin að finna fína útvarpsstöð með góðri nostalgíu músík frá ýmsum tímabilum, allskonar músík, earth wind& fire, tina turner, piano man (lag), elvis, steely dan, pixies, rem, led zeppelin, cat stevens og name it! Svo fæ ég mér bara romm og kókakóla , stilli í botn og dansa í sandölunum á svölunum...... Það verður gaman hjá mér ;)
p.s. við fengum nýja hótellykla svo nú er allt í orden:) Þetta er allt tölvustýrt núorðið og ekkert mál að breyta skrám....