Blogg sem ég fann, það nýjasta síðan vorið 2007

22.5.07

Allsstaðar eru þessir glæponar!Originally uploaded by sara johanna.

Þetta með sólina í gær reyndist svo bara vera gabb. Hún lét sjá sig í bítið en svo hrönnuðust skýin fyrir hana og héldu sig þar daginn út! Þannig hefur þetta reyndar verið síðan við komum, sól til 10 á morgnanna og svo búið. Þetta lítur betur út í dag, komið fram yfir hádegi og ennþá bara fjórir litlir skýjabólstrar á himni og enginn þeirra í námunda við sólina :) Ég fæ kannski uppreisn æru hjá hinum golf-grasekkjunum eftir þennan dag.....sjö níu þrettán......
Ég frétti að hefði snjóað í Reykjavík í gær! Þá átti náttúrulega að hlakka í mér.....
Það fylgir ekki sögunni hvort það gerðist ;)

En nú er komið smá babb í bátinn: annað hvort okkar er búið að týna hótellyklinum sínum og bóndinn farinn í golf, lyklalaus. Eins gott að þetta uppgötvaðist áður en hann fór í morgun, annars hefði ég ekkert komist inní íbúðina aftur fyrr en síðdegis.
Að sjálfsögðu snérum við öllu á hvolf í íbúðinni og leituðum allsstaðar og mörgum sinnum á hverjum stað en án árangurs.

Og með það sama fór neikvæða hugmyndaflugið mitt í gang, á augabragði sá ég í hendi mér hvað hafði gerst : Á veitingahúsinu í gærkvöldi hafði lykillinn minn skoppað uppúr ljósmyndatöskunni þegar ég var að ná í myndavélina til að afmynda matinn sem var svo flottur, einhver túrhestur með krimminel tilhneigingar sat við nærliggjandi borð og sá þegar lykillinn (sem er rafrænt kort) datt undir borðið. Hann sá líka hvað ég var með gífurlega flotta myndavél og hugsaði með sér að fyrst ég ætti svona grand myndavél, hlyti ég að eiga afbragðs fartölvu uppá hóteli til að setja myndirnar í og jafnvel vinna eitthvað með þær.
Hann beið þangað til við drifum okkur burt, örugglega búinn að borða fjóra eftirrétti til að biðin yrði ekki grunsamleg í augum þjónanna. Síðan náði hann í kortið undir borðinu og elti okkur heim á leið svo lítið bæri á. Hann var með blýant og blað í vasanum og skrifaði niður hjá sér númerið á íbúðinni, ákveðinn í að koma á morgun (í dag) og stjéla tölvunni og myndavélinni!

Síðan ég fattaði þetta er ég búin að vera á báðum áttum hvort ég eigi að þora að yfirgefa íbúðina og skjóta mér út í sundlaugargarð eða hvort ég eigi bara að hanga á svölunum (vonandi er þrjóturinn ekki með byssu). Ég er búin að vera að skima eftir felustöðum í íbúðinni en engan skynsamlegan fundið ennþá. Ekki setur maður tölvuna inní ísskáp!

Eina sem ég get gert í stöðunni er að slaufa sólbaðinu og koma mér útí internet-kompuna innaf ljósmyndavörubúð indverjanna hér ofar í götunni, þangað tek ég nottla með mér tölvuna, já og til öryggis myndavélina.....
Svona getur nú lífið stundum verið flókið þegar maður á dýrgripi :(
Aumingja Dorrit.....segi ég nú bara! Hvað má hún líða?