Mao lúkkið
Originally uploaded by sara johanna.
Laugardagur:
Sem betur fer var engin sól í dag, því ég er ekki ennþá búin að finna á mig sólgleraugu sem passa utanum sjóngleraugun. Nógu er nú bjart samt, þó sólin sé ekki að bæta ofan á það.
Annars keypti ég mér derhúfu í gær til að redda mér fram að sólgleraugum . Ég er ekki flott með derhúfu. Allavega ekki með klassíska kúlulaginu svo ég prófaði annað snið sem er svona öllu ferkantaðra uppá kollinum. Hún er hermanna-græn og í speglinum í búðinni var ég bara nokkuð flott með hana, spegillinn að vísu i minni kantinum og í dimmu skoti. Húfan gerir alveg gæfumuninn, augun ekki eins konstant pýrð og minni hætta á sólsting þegar sólin lætur sjá sig.
Ég var bara nokkuð góð með mig og stóð í þeirri meiningu allan daginn að ég væri voða sæt með nýju húfuna........gott ef ekki bara sætasta stelpan á ballinu....þar til ég kom aftur heim á hótel og mætti risaspeglunum þar, sem spegla alla vínkla...
- Ég var ekki pæjuleg!...leit út eins og Mao formaður, með græna kaskeitið! *Sætt* var langt því frá rétta lýsingarorðið yfir lúkkið. -Eitthvað sem vekur óttablandna virðingu var kannski nær lagi, enda þegar ég hugsa til baka er ég ekki frá því að ég hafi einmitt séð svoleiðis svip á fólkinu sem mætti mér á götu eftir að ég setti upp húfuna ;)
Við brugðum okkur til golf-gengisins í hinum bæjarhlutanum til að snæða með þeim kvöldmat. Þau fóru með okkur á stað rétt hjá hótelinu þeirra. Þar var góður matur og heimilisleg þjónusta og þau búin að prófa alla réttina á matseðlinum sem voru aðallega nautasteikur (ég fékk mér samt pastarétt). Okkur til undrunar kom í ljós að þau voru búin að borða þarna öll kvöldin og ætluðu sér að halda því áfram! Ekkert að vesenast, sögðust alltaf gera þetta erlendis, finna sér matstað nálægt hótelinu og halda sig við hann!!! alveg öfugt við okkur sem erum eins og flær á skinni alltaf á nýjum og nýjum matsölustöðum í leit að nýjum ævintýrum fyrir bragðlaukana.
Þegar við sögðum þeim skrímslasöguna okkar hrópuðu þau umsvifalaust: Látiði færa ykkur strax! T.d. hingað, hér eru engar pöddur. En okkur verður ekki haggað, við ætlum bara að búa áfram á okkar elli-smella-hóteli. Skrímslin eru dauð og við treystum því að þau hafi þegar mætt á miðilsfund hjá eftirlifandi skrímslum og varað þau við viský-morðingjunum ógurlegu.
Sunnudagur:
hm.....engin sól í dag heldur......fjórða daginn í röð........
Spurning hvort ég á að hafa einhverjar áhyggjur af þessu? Ég fór í tveggja vikna sólarferð í fyrrasumar og þá var bara sól í 2 daga, rigning og þrumuveður alla hina, og svo skrapp ég til Svíþjóðar í apríllok hvar hafði verið hitabylgja í mánuð, en þá fjóra daga sem ég var þar, dró fyrir sólu og kólnaði allískyggilega, fór niður í 4 gráður minnir mig, vettlinga og húfu veður en hlýnaði síðan aftur svo um munaði um leið og ég hypjaði mig til baka heim. Er einhver að fikta með vúdú-dúkku á mig og ferðalög? Ég asnaðist til að segja golf-ferðafélögunum þessar ferðasögur mínar og nú eru þau klár á því að sólarleysið hér sé mér að kenna! Þau höfðu séð fyrir sér sólböð á sundlaugarbakkanum í bland við verslunarferðir , golf og kvöldmat á horninu en hafa svo ekki enn getað spókað sig á bikiníunum sínum.
Í dag gengum við eftir endilangri strandgötunni, sem var þriggja tíma ganga ef með eru talin þrjú bjór og hvítvíns stopp. Við sannfærðumst enn betur um hversu heppin við værum með okkar elliheimili og umhverfið þar. Allavega gætum við ekki hugsað okkur að búa á amerísku ströndinni, þar er túrisminn alveg ærandi, kraðakið og sölumennskan verulega ágeng og óyndisleg. Maður gengur ekki þrjú skref áfram án þess að ráðist að manni blakkur sölumaður með sólgleraugu í massavís á öðrum handleggnum en hálsmen á hinum , allir með eins varning. Á víð og dreif sitja svo þrjár blökkukonur í hnapp, mjög fallega klæddar í skærum mynstruðum búningum og bjóðast til að setja perlur og fléttur í hárið á þeim sem það vilja.
(Ég skil ekki alveg afhverju þær eru alltaf þrjár saman.....) Ekki er mikið að gera hjá þeim enda markhópur þeirra, litlar stúlkur, ekki hér í hrönnum í augnablikinu, töluvert of hár meðalaldur á staðnum fyrir þeirra þjónustu. Þær reyna samt.........ótrúlega bjartsýnar!
Ein reyndi t.d. að fá mig í svona aðgerð!!!! Og ég sem var með mao húfuna kyrfilega klessta á kollinum....hún hlýtur að hafa verið nýbyrjuð í bransanum blessunin. Minnug þess að ónefndar ungar frænkur mínar komu grálúsugar heim úr Frakklandsreisu í fyrrasumar hvar þær einmitt keyptu sér svona þjónustu, afþakkaði ég gott boð.
Nú er kominn mánudagur og bóndinn farinn í golf. Sólin er ekki eins feimin og undanfarið því nú sýnist mér vera hálfskýjað. Kannski ég leggist bara á grillið við sundlaugarbakkann. Verst að ég steingleymdi að taka með mér bók að heiman svo ég hef þurft að blogga í staðinn, mér til dægrastyttingar, en varla tek ég tölvuna með út í sundlaugargarð. Aðeins of bjart (og blautt) til þess :)