Blogg sem ég fann, það nýjasta síðan vorið 2007

19.5.07


Skrímslin dauð
Originally uploaded by sara johanna.

Við hjónin stóðum í ströngu við eiturefnahernað til kl. 3 í nótt.
Fórum frekar seint út að borða í gærkvöldi og á smá pöbbarölt eftir það.
Komum svo heim um 1 leitið, fengum okkur kvöldhressingu og duttum í smávegis kjaftastuð. Í miðju spjallinu birtist skrímslið, í þetta sinn undan sjónvarpsskenknum og trítlaði um gólfið eins og það væri kóngurinn sjálfur.
Það var búið að vera opið út á svalir í lengri tíma svo ekki var það málið að það slyppi ekki út. Greinilegt var að það var staðráðið í að hafa fasta búsetu í íbúðinni. Hvort það var brjóstbirtunni að þakka eða öðru þá vaknaði þarna drápseðlið í okkur báðum.
Við byrjuðum á að færa til húsgögn því dýrið skaust alltaf allsstaðar á bak við, og á endanum var allt komið á hvolf húsgögn, borð og skápar, út á mitt gólf. Þarna sáum við að dýrið skaust upp veggi og gat gengið á hvolfi undir húsgögnum og komst mikið meira um en við höfðum áður haldið. Við sáum líka að það gat dregið sig saman og skotist undir hurðir á milli herbergja! Það var hrollvekjandi, því bilið þar er eiginlega ekki neitt. Í miðjum eltingaleiknum birtist nýtt skrímsli! Aðeins minna og öðruvísi en sömu ættar...kannski konan eða barnið...? Það var þá sem við skutum á neyðarfundi í sófanum og lögðum á ráðin um almennilegar hernaðaraðgerðir og fórum yfir hvaða morðvopn væru til í kotinu. Þótt ótrúlegt megi virðast (að ég tímdi því) kom hugmyndin frá mér: Við skyldum drekkja þeim í viskýi! Ég spratt upp og náði í óopnaðan fríhafnar-viskýpela , afmeyjaði hann og hellti í glas og upphófst nú eltingaleikur við dýrin bæði, við skvettum á þau til skiptis en í byrjun tókst þeim alltaf að skjóta sér undan. Þegar leið á stríðið fór þeim eitthvað að förlast og litla dýrið varð fyrst fyrir smá gusu og VÁ! það var eins og við manninn mælt, það steinlá með það sama! Stóra skrímslið dó svo skömmu síðar. Semsagt : Viský drepur!
Þegar adrenalínvíman fór að renna af okkur og við fórum að líta í kringum okkur fengum við hláturskast, Íbúðin var gersamlega á hvolfi, viskýpelinn hálfur og viskýpollar um öll gólf og sumstaðar skvettur langt uppá veggi. Sjónvarpsskjárinn snéri uppað vegg (stendur á skenk á hjólum) skúffur voru á víð og dreif um stofuna því kvikindin höfðu skotist um allt, m.a. inní skúffur og skápa Og inní tölvutöskuna mína! Og þvílíkur áfengisfnykur! Við máttum gjöra svo vel og skúra allt hátt og lágt og lofta út. Nú er kominn nýr dagur og pöddurnar ennþá steindauðar á vaskborðinu, en til öryggis helltum við slatta af viskýi á þær eftir að þær voru dauðar, svona til að fyrirbyggja að þetta væri ekki bara áfengisdauði. Ég ætla svo að skjótast með þær niður í lobbý á eftir og sýna hótelstaffinu gripina og spyrja í leiðinni hvað svona pöddur heiti.
Nú er ég búin að fá það staðfest að kvikindin heita Cucarachas og eru hér í milljónatali. Við fengum brúsa af skordýraeitri afhentan með viðhöfn, svo nú getum við brúkað viskýið til annarra hluta ;) Eru þetta kannski ekki bara kakkalakkar?
Viskýmaðurinn ógurlegi


p.s. Varðandi fyrirsögnina á færslunni á undan, Ylfa, ég veit ekki hvað kom yfir mig að skrifa skrímsli með yppsiloni, það jaðrar nottla við dauðasynd! en það er eitthvað *bögg* á blogger svo ég get ekki breytt því núna :( Reyni aftur síðar, því þetta gengur náttúrulega engan veginn !