Originally uploaded by sara johanna.
Eitthvað hefur yahoo klikkað á veðurspánni, hér er hvorki dropi af rigningu né þrumugangurinn sem hótað hafði verið. Hér er bara sól og hiti og svo bjart að ég get varla haft augun opin. Fæ mér sólgleraugu á eftir! Reyndar var okkur sagt í gær að hér væru að meðaltali þrír rigningadagar á ári (yahoo hótaði 8 regndögum í röð!!! ;) Nú er Gísli farinn í golf og ég svona að fara að drífa mig út í daginn. Fer bara á eitthvað rand niður í bæ með myndavélina, býst ég við. Annars er það mottó hjá mér þessa dagana að plana ekki neitt, láta bara hvern dag spinna sig eins og honum þykir best.
Það kom fljótlega í ljós að við erum ekki ein í íbúðinni hér, það fylgir gæludýr með.
Gísli er sveitastrákur og þekkir dýrin stór og smá, þekkir t.d. alla fugla með nafni og hvaðeina, en þetta dýr hefur hann aldrei fyrr séð. Okkur grunar þó að þetta sé skordýr (stórhættulegt og í drápshug, vil ég meina). Sem betur fer flýgur það ekki, en það er á stærð við sígarettukveikjara og heldur ófrýnilegt allt saman. Fyrstu nóttina bjó það á baðherberginu svo það var ekkert pissað þá nóttina en í gærkvöldi þegar við komum heim var það búið að flytja sig inní stofuna. Þegar við komum inn gekk það ákveðið í átt að mér (berfættri) og ég verð að viðurkenna að var að því komin að veina en fraus svo bara í staðinn , fraus í hoppum, hoppaði til og frá og dýrið elti mig!!!! þar til ég stappaði svo rækilega niður að það flúði undir sófa. Venjulega er ég ekkert hrædd við skordýr, mýs og annað smálegt, en þetta skrímsli er bara aðeins of mikið fyrir mig. Ég sá það á Gísla að hann var ekkert hrifinn heldur en hann setti upp pókerfeisið um leið og skrímslið var komið undir sófann og sagði bara : .....Hva!
Enginn drápshugur, ekki neitt, ekkert að bjarga frúnni frá bráðu taugaáfalli....bara :Hva!....... dýrið er bara hrætt við þig! Já einmitt! það er svo hrætt við mig að það gengur ákveðnum skrefum að mér með klær og rana, risastórt og eltir mig í hoppunum þar til ég næstum fótbrýt mig í risa stappi.....hm.....
Dýrið er enn undir sófanum örugglega búið að innrétta sér íbúð þar og hefur það garanterað bara næs.
Hér á hótelinu er internettenging....en nei ég get ekki notað fartölvuna mína, internetið er í gegnum sjónvarpið og ég þarf snúru og lyklaborð til að geta notað það. Það er ekki hægt að fá lyklaborð hér. Hver ferðast með lyklaborð með sér?
Kannski finn ég eitthvað netkaffihús, kannski ekki. Á meðan blogga ég bara í TextEdit ;) sendi það svo í loftið þegir færi gefst.
Annars líst mér bara bráðvel á staðinn, fengum okkur þjóðarrétt hérlendra í gærkvöldi, kryddlegna kanínu og rosa góðan kaffidrykk á eftir sem heitir Barraquto. Kanínan var líka bráðgóð. Við komum hingað með vinafólki okkar en búum í alltöðrum bæjarhluta fyrir misskilning. Meiningin var að við værum í göngufæri við þau, þau vildu búa á golfvellinum, eða við hann, en eitthvað misfórst í pöntuninni og þeim var plantað á kolvitlausan golfvöll, svo nú eru það leigubílar sem Gísli situr í lungað af deginum, til og frá golfvelli og svo að hittast á kvöldin þegar við nennum.
Einnig erum við einu íslendingarnir á þessu hóteli, hinir 200 rottuðu sig saman á öðrum hótelum, líka fyrir misskilning, en það er bara flott, hér erum við eins og lítil börn samanborið við aðra gesti hótelsins eru hard-core þýskir eldriborgarar, og þá meina ég eldri borgarar, göngugrindur og græjur ;) Ekki eru samt allir í göngugrind, nokkur hjón dansa hér á barnum á kvöldin við undirleik eins manns með skemmtara sem flytur aðallega Tom Jones og Engilbert hömperdínk slagara á milli þess sem hann spilar foxtrotta, ræla og valsa. Alveg óþægilega svakalegur tónlistargerningur. Heilmikið bíó samt að fylgjast með þessu. Ég sé á auglýsingum að í kvöld verður töframaður að skemmta á barnum og þegar hann hefur lokið sér af verður Risa Bingó!!!! Kannski við bregðum okkur á það, ef við fáum barnapíu fyrir skrímslið.