Blogg sem ég fann, það nýjasta síðan vorið 2007

31.5.07

Síðbúin sólbrúnka og heimkoma!


grillið
Originally uploaded by sara johanna.

Jæja, nú er ég komin heim í ferskan vindblæinn, skaðbrennd á lærunum og Gísli á maganum..... ;)
Við skelltum okkur í fyrsta sinn á grillið í sundlaugagarðinum síðasta daginn okkar, enda orðin heimilislaus kl.12 eins og alltaf er á hótelum síðasta daginn og flugið ekki fyrr en 10 um kvöldið. Við vorum bara svo óheppin/heppin að akkúrat þennan dag snarbatnaði veðrið, það var nánast heiðskýrt og steikjandi hiti.
Við mættum svo á flugvöllinn eins og kolamolar og hinar golf-grasekkjurnar sem legið höfðu á grillinu allan tímann urðu bara fúlar......: þið sem voruð hvít í gær þegar við hittum ykkur og komið svo í dag steikt af sól!!! og við búnar að streða við sólböð allan tímann og erum ekkert brúnni!!!!
Ég huggaði þær með því að við værum bara dökk á köflum, eiginlega eins og bútasaumsteppi úr rauðu, brúnu og fannhvítu efni. Þannig er ég t.d. eldrauð og brennd framan á lærunum en snjaka hvít aftan á þeim. Maginn er eins og langsoðinn kjúklingur á litinn en bringan eins og blóðug nautasteik og svona má lýsa öllum skrokknum. Þar að auki lá við að við yrðum að standa upprétt í flugvélinni vegna brunans - og helst án fata , ekki þægilegt þegar fötin nuddast við brunann. Samt var ég með sólarvörn með tölunni 30! Sterk sólin þarna næstum við miðbaug.
Flugið tók 5 og hálfan tíma, sem skotgekk á leiðinni út en virkaði sem heil eilífð á leiðinni heim. Ég get bara ekki fest svefn í flugvél og var því orðin verulega sybbin þegar við loks komum heim um 5 leitið í morgun. Auk þess lentum við í flugsætum sem í fyrstu virtust *saga Class* sæti, með miklu rými fyrir framan, en þetta voru þá sæti við neyðarútgang. Það var ekki hægt að leggja þau aftur og ekki heldur hægt að taka stólarmana upp, ekkert hægt að koma sér þægilega fyrir. Eins og það væri ekki nóg, þá fylgdi þessum sætum líka heilmikil ábyrgð: Flugþjónn kom og kenndi okkur í smáatriðum hvernig við ættum að opna neyðarútganginn ef til þess kæmi að það þyrfti!
Alltaf skrítinn fyrsti dagurinn eftir svona ferðalög milli landa, eins og maður detti inní eitthvað tómarúm, heilinn í vagúmpakkningu, kannski er það satt sem einhver sagði, að sálin kæmi alltaf með næstu vél.
Svo nú er að strauja í gegnum dagblaðafjallið, kynna sér hvað er í gangi hér, komin ný ríkisstjórn og svona.......
Mér sýnist mér hafi tekist að lauma einhverjum sólargeislum og hitagráðum með mér í farangrinum. Esjan er allavega ekki hvít!