Blogg sem ég fann, það nýjasta síðan vorið 2007

29.5.07

Tenerife aftur, fleiri skrímsli, Abba-show og útskriftargjöf!!


Sólgleraugun
Originally uploaded by sara johanna.

Allt annað líf síðan ég fékk sólgleraugun! Birtan hér er ekki fyrir venjuleg íslensk augu eins og glöggt má sjá á þessari mynd. Ég gafst upp á að leita að passandi gleraugum til að smella á mín, öll voru svona rúnnuð og stór. Ég keypti þessi, fór svo heim og klippti þau til. Hér eru þau fyrir klippingu.

Við flugum til baka til Tenerife í gærkvöldi að afloknu matarboði hjá Jóhanni og Cristinu. Þegar við komum á hótelið mætti okkur kunnugleg vond lykt og hótelgarðurinn var allur blautur. Kakkalakkar lágu eins og hráviður út um allt, á bakinu. Merkilegt hvernig þeir skella sér á bakið á dauðastundinni. Það hafði greinilega verið kallaður til meindýraeyðir. Líklegast einhverjir hótelgestir sýnt harðari viðbrögð en við um daginn. Þegar við svo opnuðum íbúðina stökk á móti okkur skrímsli sem hafði reynt að plata dauðann. Þar misreiknaði það sig, því Gísli tók stökk inná bað, náði í eiturbrúsann og dúndraði á hann örugglega hálfum brúsa og skrímsla-gaurinn endaði á bakinu. Nokkrum mínútum síðar kom í ljós að hann var ekki einn um að hafa sloppið undan meindýraeyðinum, vinur hans var á vappi inná baðherbergi......Hann hlaut sömu örlög og var kominn á bakið stuttu síðar. Brúsinn örugglega alveg að verða tómur, bara á þessa tvo og þetta er enginn smá brúsi. Whiskýið er miklu betra á þennan ófögnuð, það drepur þær á augabragði á meðan þetta gutl með vondu bón-lyktinni fargar þeim hægt og rólega. Smelli mér kannski á nýjan whiský pela, hinn er náttúrulega löngu búinn, -fylgir ekki sögunni hver sá fyrir því...
Gólfið semsagt löðraði allt í klístruðuí skordýraeitri svo nú tók við gólfþvottur á síðkvöldi.
Þetta er nú meira pöddubælið ;)

Til að njóta adrenalínvímunnar eftir átökin, blönduðum við okkur gin&tónic og settumst útá svalir. Þar bárust okkur þessir fínu Abba-tónar og greinilega fjölmennur gleðskapur. Það var rjóma logn og mun hlýrra en verið hefur.
Við ákváðum að drífa okkur út og renna á hljóðið.
Þetta kom frá nærliggjandi hótelgarði og þar plöntuðum við okkur niður, fengum okkur meira gin&tónic og horfðum á Abba showið sem var bara þokkalegt, nema búningarnir voru arfa-ljótir fyrir utan silfurlituðu háu stígvélin á Agnetu og Frídu og útvíðu glimmer-buxurnar á Benny og hvað hann heitir aftur hinn.....Andersen?
Að því loknu tók við maður með skemmtara, þeir virðast vera hér á hverju strái og spila alltaf sama prógrammið aftur og aftur, hver með sitt prógram þó, þessi var með nýrri slagara en sá sem er alltaf hér á okkar hóteli, enda yngra fólk þar.
Hann er dulítið langur í okkur fattarinn, við höfum oft heyrt tónlist og gleðskap þegar við höfum setið útá svölum á síðkvöldum, en föttuðum ekki hvaðan hljóðið barst fyrr en núna, næstsíðasta kvöldið okkar hér. Semsagt hótelið við hliðina á okkur er aðal djammstaðurinn í bænum!

Nú er kominn þriðjudagur og Gísli farinn í sitt golf en ég hugsa mér gott til glóðarinnar með nýja leikfangið mitt sem ég fékk gefins í gær!!!! JESSSSSSS!
Haldiði að ég hafi ekki fengið Sigma 10-20mm linsu í útskriftargjöf frá bóndanum!!!
Jóhann frændi fór með okkur í ljósmyndavörubúð sem hann þekkir í krók og kring í Las Palmas . Það er búið að vara mann svo rækilega við indverjunum sem undantekningalaust reka þessar búðir og eru jafnvel að selja fólki tóma kassa dýrum dómum, eða með einhverju gömlu drasli í fínum umbúðum, fyrirtæki Jóhanns er í föstum viðskiptum við þessa búð (sem selur líka sjónvörp og alls konar raftæki) svo þeir þora ekkert að steypa í honum :)

En nú ætla ég að vinda mér útí næst síðasta Tenerife-daginn minn :)
og sjá hvernig hann spinnur sig.

P.s. eftir að ég skrifaði þessa færslu fór ég að hafa mig til til að fara út og komst þá að því að nýju gleraugun eru ónýt! Ein af nokkrum skrúfum er dottin af og finnst ekki, svo nú hangir annað glerið lóðrétt niður á kinn. Spurning hvort ég nenni nokkuð að redda mér nýjum.....?