Blogg sem ég fann, það nýjasta síðan vorið 2007

28.5.07

Las Palmas, smá gleymska og þjónakoss..........


Late afternoon in Canaria
Originally uploaded by sara johanna.

Búin að vera í aldeilis góðu yfirlæti í Las Palmas á Kanarí yfir helgina!
Lóðsuð um af innfæddum fyrsta daginn (þ.e. Jóhanni frænda og Christinu, konu hans, sem er fædd hér og uppalin) Við fengum íbúð uppí hendurnar og bíl Jóhanns til frjálsa afnota! Fórum síðan með þeim og Söru litlu dóttur þeirra á lókal veitingarhús að hætti heimamanna. Á Laugardögum hópast fjölskyldurnar saman í löns á heimilislegum resturöntum og gæða sér á góðum mat. Þarna var ekki einu sinni matseðill, þjónninn kom bara og þuldi upp það sem var í pottunum þennan daginn og þá var eins gott að kunna spænsku....sem þau gerðu ;) Við borðuðum líka með þeim kvöldmat í gamla bæjarhlutanum þar sem er hellingur af skemmtilegum matsölustöðum, og það var ekki kl. sjö.....heldur uppúr kl. tíu um kvöldið sem sú athöfn hófst. Og þvílíkt gúmmolaði sem við fengum......ekkert nema nammi namm.
Í dag fórum við hjónakornin svo í bíltúr hringinn í kring um eyjuna.
Lögðum keik af stað uppúr hádegi vopnuð einhverju míní landakorti sem dugði svo svona skrambi vel. Las Palmas er efst til hægri á kortinu, semsagt norð-austur, og við ókum niður, í suður . Enska ströndin, sem milljónir íslendinga fara á ár hvert, er einmitt á suðurströndinni og að sjálfsögðu stoppuðum við þar til að skoða verksummerki. Það var líka kominn tími á hressingu og við fórum að skima eftir bitastað sem okkur gæti hugnast.
Nema hvað að Gísli fer að haga sér eitthvað undarlega, þessi annars dagsfarsprúði maður byrjar að lemja sig allan að utan, einkum og sérílagi á mjaðmirnar, rassinn og sitthvorumegin við gersemarnar.
Ég er nægilega greind til að sjá að það er eitthvað sem er ekki eins og það á að vera..... Hvað það er kemur í ljós þegar hann segir: Veskið........!!!!
Peningaveskið okkar var semsagt á stofuborðinu í Las Palmas........

Sem betur fer voru nokkrar evrur í ljósmyndatöskunni minni, svo okkur tókst að nurla saman fyrir tveimur kaffibollum á ensku ströndinni áður en við snérum til baka að sækja veskið.
Svo var það bara byrjunarreitur aftur: Hringferð, taka tvö!

Það var EINN geisladiskur í bílnum og við spiluðum hann hring eftir hring.
Þetta var Jóhann Helgason/ Söknuður........og sá er góður!
Ekkki grunaði mig að hann hefði samið öll þessi lög sem hann flytur þarna.
Sjálfur gerir hann þetta svo vel að þótt þau séu mjög vel flutt af öðrum flytjendum, sem hann samdi þau fyrir, toppar hann flutninginn undantekningalaust!

Ferðin upp vesturströndina á Kanarí var mögnuð, snarbrattir og bugðóttir fjallvegir í mögnuðu landslagi. Sólin gerði líka sitt til að auka á dramatíkina, ljós og skuggaspilið var ekki af verri endanum, Komum ekki heim fyrr en um níu leitið í kvöld (stoppuðum oft, oft, oft á leiðinni).

Slepptum svo síðdegisblundinum, enda komið síðkvöld , brugðum okkur í gamla bæjarhlutann, leituðum að góðum matsölustað og kröfluðum okkur fram úr spænskum matseðli, þjónustustúlkan sem var frá Argentínu, forvitnaðist um hvaðan við værum og varð uppnumin þegar það lá ljóst fyrir og sagði full aðdáunar: BJORK! Hún kvaddi okkur með kossi á báðar kinnar og við tókum leigubíl heim eftir langan og góðan hvítasunnudag :)

Á morgun kemur nýr dagur og við vitum ekkert hvernig hann verður, nema að við stefnum að flugi annaðkvöld til baka til Tenerife :)