Blogg sem ég fann, það nýjasta síðan vorið 2007

2.12.05

Letikast per exellance
Ef það er hægt að deyja úr leti, þá er ég í andaslitrunum.....þið megið fara að gera uppkast að minningargreinunum. Ég er í fullkomlega hlutlausum gír og nenni ekki einu sinni að teygja mig í gírstöngina til að skipta um gír !

Það er pappakassi búinn að vera á stól hér í marga daga, pappakassi sem ég skar pappa úr til að búa til pappamassa-aðventukrans (sem ég hef ekki nennt að klára)
og stóllinn með kassanum ofan á sér stendur í gangveginum, þannig að ég þarf að taka á mig langan aukakrók til að svara í símann, en nei, frekar geri ég það en að færa kassann og stólinn til. Kassinn á t.d. heima ofaní kjallara og er örugglega kominn með heimþrá. Í dag píndi ég mig samt í eitt verkefni, sem ég var búin að gera 100 sinnum í huganum undanfarna daga, ég tók niður dökkgráar (eiga að vera hvítar) eldhúsgardínurnar og stakk þeim í þvottavél. Þær eru komnar upp aftur, orðnar hvítar og ég er búin að klippa neðan af þeim þar sem þær voru alltof síðar og náðu langt út á gólf. Falda þær svo kannski fyrir páska eða næstu jól. Þvílíkt afrek ! og svo eldaði ég ungverska gúllassúpu, en því nenni ég reyndar alltaf.

Samt líður mér vel og hef ekkert samviskubit yfir letinni, held þetta sé bara heilbrigt og hollt svona annað veifið. Gott að skríða svona inní sjálfa mig í svartasta skammdeginu. Þessi leti hefur auðvitað náð yfir blogg tilþrifin líka, lítið verið um þau. Og nú er kl. bara 10 á föstudagskvöldi og ég er að hugsa um að skríða bara í bólið með góða bók og njóta letikastsins í botn.....
Mæli með svona kasti !