Blogg sem ég fann, það nýjasta síðan vorið 2007

9.5.07

Ég er köttur



Originally uploaded by sara johanna.

Persónulega er ég orðin alveg ónæm fyrir pólitísku þrasi frambjóðenda af öllum stærðum og gerðum.
Og nú er ég búin að renna þessu í gegnum greiningardeildina í heilabúi mínu og átta mig á hvað gerist í mér þegar ég verð vitni að pólitískri umræðu. Í stuttu máli er niðurstaðan þessi: Ég heyri ekki HVAÐ þeir segja heldur bara HVERNIG þeir segja það.

Oftast heyri ég eftirfarandi blæbrigði þegar t.d. kappræður eiga sér stað í sjónvarpi eða útvarpi: þras, gremju, suð, tuð, ásökunartón, fórnalambstón, væl, háð, frammíköll, frekju, dónaskap o.s.frv....semsagt mjög niðurdrepandi og óyndislegt.

Ég vildi óska að umræðan væri ferskari, glaðlegri, bjartsýnislegri, uppbyggilegri, umburðalyndari, mannúðlegri, elskulegri og þar fram eftir götunum.

Ég er eins og kötturinn, hraða mér burt og loka eyrunum ef umhverfið er órólegt og rifrildiskennt en slaka á, legg við hlustir og mala þegar umhverfið er friðsælt og vinsamlegt.
Svei mér þá, ég veit ekkert hvað ég á að kjósa á laugardaginn, veit ekki hvernig ég á að afla mér upplýsinga um framboðin þegar ég nenni ekki að horfa á sjónvarp, hlusta á útvarp, né lesa blöðin........