Blogg sem ég fann, það nýjasta síðan vorið 2007

2.11.05

Sumir dagar eru ekki alveg í lagi !
Dagurinn í dag var einn af þeim. Klúður á klúður ofan. Eftir kennsluna brunaði ég niður í Litaland í lita og strigakaup, staflaði varningnum í bílinn og ók hróðug af stað heim, öryggið uppmálað nýbúin að skipta yfir á nagladekkin ( gær). Það var brjáluð umferð, allir á heimleið og þegar ég var búin að koma mér vel fyrir á vinstri akgrein (hraðlínunni) hvellsprakk annað framdekkið ! Ég skellti hazardljósunum á og stoppaði auðvitað....
Það er kannski skömm frá því að segja en ég kann ekki að skipta um dekk... (þetta er leyndarmál) svo ég greip símann og hringdi í aumingja gísla sem lá veikur heima - maður á náttúrulega ekki að segja frá þessu.....
Hann tók af sér nátthúfuna , setti upp ullarhúfuna og sagðist vera kominn eftir korter. Ég sat bara skelfingu lostin í bílnum og starði í baksýnisspegilinn og bjóst við bíl krassa á mig á hverju næsta augnabliki....þeir óku flestir eins og þeir væru með fæðandi konu í bílnum eða sjúkling sem væri um það bil að blæða út og svo var orðið launhált í ofanálag, ég áttaði mig á því þegar saltbíllinn þaut fram hjá á fullu blasti og saltið spýttist á bílrúðuna.
Ég hafði stoppað eins mikið útí kanti við girðingu sem aðskilur umferðina út og suður - og mögulegt var ...nema hvað , birtist ekki löggubíll fyrir aftan mig með bláu ljósin blikkandi og ég hoppa út úr bílnum dauðfegin að sjá bjargvættina -
--neinei, þá öskrar löggan uppí eyrað á mér : ætlarðu að láta keyra aftan á þig !!!! komdu þér eins og skot uppá gangstétt hinum megin (mig grunar að hann hafi langað til að segja : hálfvitinn þinn) Þeir stoppuðu svo umferðina, létu mig keyra yfir og uppá snjóskafl. Stukku svo upp í sinn löggubíl og brunuðu í burtu.
Eins gott að ég var með símann.
Stuttu síðar kom svo veiki maðurinn og upphófst nú dekkjaskipting í brunagaddi (ég þarf að fá mér dúnúlpu komst ég að) Það tók óratíma að tjakka hann upp, enginn eðal tjakkur , svo var skipt um dekk , og tjakkað niður....og kom þá í ljós að varadekkið var alveg flatt ! svo nú þurfti að tjakka aftur upp og taka dekkið af... ég sór og sárt við lagði að síðast þegar sprakk hefði ég farið með dekkið í viðgerð, svo gísli tók dekkið og brunaði á næstu bensínstöð og pumpaði lofti í það. Heim komum við svo tveimur klukkutímum eftir að ósköpin höfðu dunið á, ég nánast gaddfreðin, en gísli var í skynsamlegri vetrarfatnaði svo hann var ekki eins kaldur enda eins gott, veikur maðurinn....
Hér hefur farið fram mikil kakódrykkja í kvöld og ég var komin í fjórar peysur þegar mest var, en svo kom svitakóf svo nú er ég bara í einni þunnri ;)