Blogg sem ég fann, það nýjasta síðan vorið 2007

29.8.05

soft side of life
Ekki laust við að maður öfundi þessi dýr. Liggja malandi í bæli sínu, áhyggjulaus, fá engan gluggapóst, þurfa ekkert að þrífa eftir sig, ekkert að standa skil á neinu, geta bara VERIÐ !
Ekki eins og við, sem höldum alltaf að við þurfum að vera eitthvað, það sé ekki nóg bara að V e r a.
Þetta var ég að hugsa um þegar ég hlunkaðist uppúr djúpa stólnum til að elda kvöldmat án þess að eiga nokkurt hráefni af viti.
Ég er lík köttunum að einu leiti allavega, er með svona ritúal eða þráhyggju varðandi eitt atriði, nefnilega að búa alltaf til kvöldmat. (kettirnir beina reyndar þessari hegðun sinni í aðrar áttir en matargerð)
Mér slær niður af flensunni í hvert sinn sem ég laumast út, svo í dag ákvað ég að vera bara inni , fór ekki einu sinni út í búð að kaupa í matinn.
Og hvað var svo til í matinn ? Ég dró út allar skúffur og skápa og fann þetta : hrísgrjón, 4 kartöflur, niðursneiddar möndlur (!), hvítlauk, linsubaunir og oggulítið tómatmauk. Einnig átti ég pínulítinn afgang af kjúklingi gærdagsins.
Ég byrjaði að elda án þess að hugsa nokkuð um hvað ég ætlaði að gera, held ég hafi hugsað pottrétt, og hagaði mér samkvæmt því í upphafi en í miðju kafi fékk ég nýja hugmynd : buff ! Sigtaði pottréttinn , maukaði hann og kryddaði svo duglega .
Datt nú í hug að sniðugt væri að kíkja í matreiðslubók, þar sem ég hef aldrei búið til linsubaunabuff . Þar komst ég að því að ég var búin að gera allt sem á ekki að gera, ég var búin að mauka soðninguna í matvinnsluvél (bannað) og ætlaði nú að fara að steikja buffin sjóðheit (látið standa í ísskáp a.m.k. 1 og hálfan tíma fyrir steikingu, annars verður þetta leðja ).... Og þetta var sko leðja !
Reyndi að bjarga þessu með því að velta uppúr kartöflumjöli, sesamfræjum og sneiddu möndlunum og skutlaði þessu á pönnuna ..hm... erfitt að snúa leðju við og steikja á bakhliðinni....Ég sauð svo hrísgrjónin , smakkaði leðjuna til en fannst hún mjög einkennileg á bragðið. Ákvað því að redda því með því að hafa hrísgrjónin góð á bragðið.... og hvað átti ég til þess? jú olíu, balsamikedik og t.d. hrásykur ! jibbý ! Bjó semsagt til salat-dressingu á hrísgrjónin sem urðu mjög laus við að vera girnileg þegar ég var búin að hræra svartri dressingunni yfir. Að lokum hitaði ég kjúklinga restina sem ég átti (örfáa munnbita) og skellti þessu öllu á borðið .
Þetta var ótrúlega ljótur kvöldmatur, svo ljótur að við fengum hláturskast sem þróaðist reyndar í hóstakast hjá mér.
Svo bara borðuðum við leðjuna með hnífum og göfflum, eins og um stinn og góð buff væri að ræða.....það var ekkert annað að gera í stöðunni ! ...amen.....