Blogg sem ég fann, það nýjasta síðan vorið 2007

3.6.05

klipping II
Fór í dekur til Erlu sundvinkonu og hárskera í morgun. Við höfum þann háttinn á að ég sest í stólinn og hún ræður hvað hún gerir. Ég hef ekkert vit á klippingu og reyni ekki einu sinni að setja mig inní það dæmi allt.
Ég hef einu sinni á ævinni beðið um ákveðna klippingu og það klikkaði svo ég geri það ekki aftur.
Ég var 6 ára gömul og settist í rakarastólinn hjá pabba. Ég bað hann að klippa mig sítt og fór svo að lesa mitt andrésblað. Þegar ég var um það bil að klára blaðið (hæglæs) sagði pabbi : Jæja þetta er komið! -og svo hristi hann hlífðarsvuntuna með smelli, - ég leit í spegilinn og fékk taugaáfall (ekki nett).
Ég var vægt til orða tekið með drengjakoll. Hafði meira verið að spá í svona Shirley Templey slöngulokka .
Það var húfa á hausnum það sumarið. Pabbi er ennþá að reyna að afsaka sig með því að hann hafi haldið að þegar ég sagði SÍTT meinti ég MIKIÐ.
Á morgun verður brunað norður í Eyjafjörð í veislu. Það á að ferma Dísu, litlu systur Elínar Bjarkar. Þetta er í sveitinni og þar er ekkert verið að pjattast heldur fermt að sauðburði loknum- og á laugardegi. Flott það !