Blogg sem ég fann, það nýjasta síðan vorið 2007

1.5.05

Þessi rós var á vorhátíð
Rós á Vorhátíð
skólans í gærkvöldi. Skólastarfinu er alltaf slúttað með góðri veislu, þar sem við kennararnir (og makar) tökum með okkur mat og leggjum á hlaðborð. Við skiptumst á að halda þessa veislu og nú var hún hjá Ingiberg og Guðrúnu á vinnustofu hans og heimili uppá Vatnsenda. Þessi samkoma klikkar aldrei- er alltaf ljúf góð og létt -og þannig var það í gær líka.
Nú er kominn sunnudagur - tæp vika í að ég opni sýninguna fyrir norðan og vonandi verður Gíslinn búinn að kaupa sér bíl fyrir þann tíma, en hann hefur ekki fundið nýja bílinn ennþá og á meðan er ég einkabílstjóri - Súkkan mín treystir sér ekki norður svo Gísli er búinn að bjóðast til að skutlast með okkur á nýja bílnum tilvonandi. Maðurinn er alveg pollrólegur yfir þessu og sér enga ástæðu til að trekkjast á taugum- svo hér er allt með ró og spekt. Það hefur líka sýnt sig hingað til að hlutirnir hafa næstum alltaf tilhneigingu til að reddast einhvernveginn.
Í allan gærdag var ég að sjóða pappírsstrimla til að búa til pappírsmauk. Fermingardrengurinn sem fer norður á sýninguna er svolítið krumpaður og hrukkóttur , lítur á köflum út fyrir að vera eldri en gömlu tönturnar sem mæta í veisluna, svo nú ætla ég að reyna að bjarga því og sparsla upp í hrukkurnar á honum. Vildi að ég gæti skellt á mínar í leiðinni, þetta efni gengur þó líklega ekki saman við mína húð...
en fyrst ætla ég í apótek og ná mér í bólgueyðandi kremið sem Árný benti mér á og skella því á olnbogana.... Það dæmi versnar frekar en hitt... svo nú er kominn tími á viðbrögð og aðgerðir....
..saran......lýtalæknir.....í hjáverkum.....
p.s. Fram þjáðir menn í þúsund löndum..... baráttukveðjur í tilefni dagsins ! Í staðinn fyrir kröfugönguna ætla ég í Fíladelfíu í dag með Garranum og Sólrúnu og syngja lofsöngva hástöfum... Það er mitt framlag til baráttunnar !