Blogg sem ég fann, það nýjasta síðan vorið 2007

15.4.05

Meyrt móðurhjartað
..hoppar dátt í dag...
trabant
... og sér fram á hörku djobb við að líma inn í úrklippusafnið ! Trabant diskurinn semsagt kominn út og þess er rækilega getið á prentakri dagblaðanna. Þegar eru komnir 4 plötudómar og allir með fullt hús stjarna. Ég er auðvitað ekkert hissa á því, flottur diskur þarna á ferð en minn dómur er varla marktækur....því eins og konan sagði : hverjum þykir sinn fugl fagur...þó hann sé bæði ljótur og magur. Annars er búinn að vera handagangur í kring um þetta og mikið líf og fjör sem gaman er að fylgjast með. Í gærkvöldi brunaði Viddinn fyrirvaralaust á blágrænni súkkunni minni suður á keflavíkurflugvöll ( þeir eiga auðvitað ekki bíl þessir rokkhundar), til að taka á móti bransafólki frá London. Skottið á súkkunni var óvart sneisafullt af dagblöðum sem áttu fyrir löngu að vera farin á sorpu (skil ekkert í þeim að vera þarna ennþá !), þannig að ferðatöskurnar fengu lítið pláss þar. Púströrið hefur ekki lagast af sjálfu sér svo hávaðinn er óheyrilegur og ekki séns að tala saman í bílnum nema öskra. Og þá er nú betra að þegja. Þetta hafðist allt saman , þrír kurteisir bransa-bretar komust á sitt hótel óskaddaðir.
Súkkan á heiður skilinn fyrir að vera betri en enginn- eins og stendur í minningargreinunum, og ætti með réttu að vera á þakkarlistanum, það var einmitt hún sem brunaði reykjanesbrautina með brunalyktina aftanúr sér þegar tveir trabantpiltar voru á leið með plötuna í masteringu, en *rétt* misstu af rútunni, sælla minninga :) ... og nú er súkkan farin í útlán til Gíslans, því haldiði ekki að bíllinn hans hafi gefist upp í gærkvöldi ! Gísli fékk óvænt góóóðan göngutúr seint í gærkvöldi þegar bíllinn hans fór í verkfall og hann hálfnaður heim á leið. Hafði gleymt símanum heima svo það var bara uppá gamla móðinn...labba heim ! Blágræna súkkan er eðlilega kát og glöð um þessar mundir, eiginlega bara í essinu sínu !
Hingað mætti svo Viddinn í dag til að skila bílnum og var þá með amerískan ljósmyndara með sér, sem nóta bene rak augun í pappírsfólkið mitt (þau þrjú sem ekki eru farin norður)
Hann bara gerði sér lítið fyrir og tók nokkrar myndir af þeim ! Gaman að segja frá því... hm..
Jæja, kannski sé kominn tími á matseld .. og svo sjáum við til hvort maður skelli sér ekki á útgáfutónleikana í kvöld, á nasa...