Blogg sem ég fann, það nýjasta síðan vorið 2007

24.5.06

Smá Langloka



Originally uploaded by sara johanna.
Nú er loksins að lifna yfir öllu lífi með tilkomu vorsins og blómanna. Maður er farinn að skjótast svona smávegis út fyrir bæjarmörkin og á döfinni er helgarferð til Köben á næstu helgi. Allir eru að kvarta yfir meintu kuldakasti en ég er svo heppin að vera í nánast konstant gufubaði inní mér, svitaköstum á færibandi (þökk sé aldrinum) svo kuldinn er ekkert að bögga mig.

Í ofanálag get ég yljað mér við minningar frá nokkurra daga sumarbústaðarferð með Ylfu frænku í síðustu viku.
Þetta var eftirminnilegasta og örugglega skemmtilegasta slík ferð sem ég hef farið í.

Í stuttu máli, klikkaði allt sem klikkað gat í bústaðnum og það fór svoleiðis yfir strikið að það var ekki hægt að pirra sig á því, við eiginlega kútveltumst bara af hlátri og vorum með harðsperrur í þindinni við heimkomu.

Þarna var heitur pottur, gufubað, kamína og gasofn til að hita kofann með á síðkvöldum. Það kom fljótlega í ljós að heiti potturinn míglak (rafmagnshitaður) svo við þurftum að finna út úr því hvernig við gætum fyllt hann, fundum loks slöngu, sem eftir nokkra leit kom í ljós að við þurftum að skrúfa á sturtuna. Barkinn var lélegur svo vatnið sprautaðist í allar áttir og að því er virtist úr öllum áttum líka !
Ok, Ylfa tók að sér að brasa við að fylla pottinn á meðan ég reyndi að koma skikki á hluti innandyra. Áður hafði hún kveikt upp í kamínunni eftir að hafa gefist upp á gasofninum (kom í ljós að kúturinn var tómur)

Ég var búin að vafra innandyra dágóða stund þegar mig fer skyndilega að logsvíða í augun og um sipað leiti átta ég mig á að lyktin er eitthvað dularfull.
Mér datt fyrst í hug að kamínan væri stífluð og rauk út og kallaði á Ylfu sem var búin að gefa þá yfirlýsingu að hún kynni sko á kamínur.
Þegar við komum inn áttaði ég mig á að ég hafði verið orðin samdauna þessu því bústaðurinn var smekkfullur af eiturgufum og lyktin var skuggaleg.
Í ljós kom að hún hafði óvart lagt plast-gaskveikjara á kamínuna sem var nú að bráðna þar. Með fiskispaða tókst okkur að skutla restinni af kveikjaranum af og svo hlupum við út því þarna var ekki hægt að anda. Létum lofta í gegn í góða stund áður en hægt var að fara inn aftur. Það var þarna, sem við áttuðum okkur á að reykskynjarinn var batteríislaus!

Til að gera langa sögu styttri tók heita pottinn sólarhring að hitna og þá var komið vel yfir miðnætti og nánast myrkur á degi tvö-þrjú. Og við skutluðum okkur útí.
oh það var svo frábært, allt komið í lag, heitt vatn, nuddpottur og næs og sátum þarna og möluðum í svona hálftíma þegar alltí einu slökkna öll ljós og nuddið snarstoppar ! : Stofnöryggið sprakk ! og þetta var öryggi með gamla laginu sem þarf að skipta út, en nei það var ekkert vara- öryggi ! Nú voru bæði potturinn og gufan (sauna) úr leik sem eftir var og sturtan eins og gatasigti, heit buna hér og köld þar svo það var ekki hægt að nota hana nema með mikilli þolinmæði og útsjónasemi .

Grillið var svo útbýjað í drasli að við nenntum ekki að þrífa það til að geta grillað svo við elduðum bara uppá gamla móðinn, kótilettur í raspi og kjötsúpu.
Loftnetið var brotið af útvarpinu svo ekki náðist einu sinni gamla gufan úr því en það var geislaspilari í því og einn geisladiskur sem hlustandi var á, evoria frá Grænhöfðaeyjum og við hlustuðum á hana aftur og aftur (Groundhog Day)

Það var eitt tæki þarna í lagi, sjónvarpið svo við gátum horft á undankeppnina í júróvisjón, en þá tók silvía upp á að klikka - í eina tækinu sem var óklikkað á svæðinu.

Til að kóróna allt saman var þarna draugagangur, en við fundum fljótlega að húsdraugurinn var af mildari gerðinni svo honum tókst ekkert að hræða okkur að ráði. Þetta lýsti sér í fótataki á pallinum úti, og brunalykt sem gaus upp við vaskinn þegar ekkert var verið að elda né nokkuð slíkt, lykt eins og af brennandi timbri.
Hún hvarf jafn snöggt og hún kom.

Gísli minn vill meina að við séum svo mikil borgarbörn að meintur draugagangur hafi bara verið fuglar og ýmis hljóð í náttúrinni en það er auðvitað mesta bull. Ef það er dýr sem framkallaði þessi hljóð, þá er það Elgur !

Ég veit að það hljómar undarlega, en við skemmtum okkur mjög vel þarna, kjöftuðum frá okkur allt vit og hlógum meira en við höfum gert lengi - enda hvað var annað hægt að gera í stöðunni?