Blogg sem ég fann, það nýjasta síðan vorið 2007

8.2.06

Ný gleraugu í sjónmáli...



Originally uploaded by sara johanna.
Gaman að segja frá því að ég skellti mér í Smáralindina í dag til að láta mæla í mér sjónina og leggja grunn að nýjum gleraugnakaupum, enda komið næstum ár frá því að þessi biluðu í hundraðasta skipti og ég reyrði þau saman með blómavír. Ég var orðin vön þessu en samferðafólk mitt var eitthvað farið að pirra sig yfir þessu , fannst af þessu sjónmengun og vottun um leti - sem væri óþarfi að bera svona á andliti sínu.
Ég átti von á að þetta yrði 10 mínútna verk, enda algjör dekurrófa hingað til í þessum efnum á meðan Dídí var með gleraugnabúðina á Ísafirði og sá algerlega um að velja á mig gleraugu fyrirfram, þ.e. þegar ég birtist í bænum, kom hún út í dyr búðarinnar og kallaði, er ekki kominn tími á nýjar brillur? ég er búin að taka frá umgjörð sem ert bara þú ! Jú það væri ekki vitlaust svaraði ég - og eins og við manninn mælt smellpassaði umgjörðin og bingó. tók 5 mínútur !
Nú er Dídí flutt til Akraness og hætt að versla með gleraugu.
Það blasti við mér annar raunveruleiki í dag.
Í búðinni voru milljón gleraugu og það þyrmdi yfir mig. Hvernig er hægt að velja sér gleraugu þegar maður sér ekkert? Það eru bara rúðugler í þeim og maður þarf að klessa nefinu í spegilinn til að sjá sig. Ég var þarna í TVO klukkutíma. Endaði með því að efna til atkvæðagreiðslu inní búðinni, þrír afgreiðslumenn og tveir kúnnar tóku þátt og skáru úr um hvað ég ætti að gera.
Þegar ég svo spurði um verðið, var mér bent á að þau yrðu 20 þúsund krónum ódýrari ef ég keypti þau í Leifstöð, hvort ég þekkti ekki einhverja sem ættu leið þar um í febrúarlok (tekur hálfan mánuð að fixa þau, tvískipt gler) nei ég held ekki, sagði ég, en reyndi samt að láta mér detta eitthvað í hug...ætti ég kannski að skella mér eitthvað í helgarferð til að sækja þau ?......það var nú flott hugmynd þótt hún væri gjörsamlega út í hött......
Gleraugun verða tilbúin 23. feb, sagði konan og ég hélt áfram að hugsa fast. Til að dreifa athyglinni (það voru kúnnar að bíða eftir afgreiðslu) leit ég í kring um mig eins og ég væri að leita að einhverju...og rak þá augun í brosandi andlit vinkonu minnar sem ég hef ekki séð lengi. Hún stóð í dyrunum. Þú hér ! hrópar hún, og ég sagði henni frá *vandræðum* mínum. Heyrðu ég er að fara út í febrúar ! hvenær ? 23. febrúar, sagði þá vinkonan :)
Ótrúlega glæsileg tilviljun - eða hvað er þetta annars ;)
Svo nú, kæru vinir og venslamenn, Það verður vonandi loksins sjón að sjá mig, í febrúarlok- þ.e.a.s. ef gleraugun klæða mig, því það hef ég ekki hugmynd um.... Dídí afhverju fluttirðu á Akranes ???